27 fúlir og tveir á bekknum - Laganámið eða Wembley?

Fótboltakappann og lögfræðinginn Guðna Bergsson þekkja þeir flestir sem hafa fylgst með gangi knattspyrnu síðustu þrjá áratugina. Á farsælum ferli sínum kom hann meðal annars við hjá Aston Villa, Tottenham og Bolton á milli þess sem hann kepptist við að ljúka strembnu námi við lagadeild háskólans.

Stúdentablaðið/Adelina Antal

Stúdentablaðið/Adelina Antal

„Ég byrjaði í Val á tíunda ári en í þá daga, fyrir tæpum fjörutíu árum, byrjuðu skipulagðar æfingar ekki fyrr en um þann aldur þrátt fyrir að flestir krakkar hafi eytt öllum stundum í fótbolta fram að því. Pabbi var mikill Valsari þar sem hann spilaði bæði fótbolta og handbolta. Þá var hann einnig í landsliðinu í handbolta og varð síðan formaður Vals, þannig maður fékk þetta dálítið í arf, að vera Valsari. Ég fór á æfingar með pabba og það kom ekkert annað til greina en að ganga í Val þótt ég byggi á þeim tíma í smáíbúðahverfinu þar sem Víkingur réði lögum og lofum,“ segir Guðni og bætir við að handboltinn hafi ekki síður átt hug hans á þessum tíma. Um tíma leit jafnvel út fyrir að Guðni myndi velja harpex frekar en takkaskóna.

 „Já, ég var í handboltanum líka en þá var algengara að menn sem yfir höfuð voru áhugasamir um íþróttir væru bæði í handbolta og fótbolta. Var ég þannig í hvoru tveggja alveg lengst framan af og um 18 ára aldurinn, þegar ég var búinn að spila töluvert fyrir meistaraflokk Vals í handbolta, ákvað ég að leggja handboltann alveg fyrir mig,“ segir Guðni en örlögin gripu fljótt í taumana. „Þá fékk ég loks tækifærið með meistaraflokki Vals í fótboltanum, bara nokkrum mánuðum síðar, en Valur var þá búinn að vera með sterkt lið í mörg ár og ég var búinn að bíða eftir því að fá sénsinn. Þarna fékk  ég tækifærið og ákvað þá að svissa yfir og einbeita mér frekar að fótboltanum. En ég hætti þó ekki alveg í handboltanum og stundaði hann jafnframt næstu tvö til þrjú árin. Þá var heldur ekki jafn mikið æft í fótbolta yfir veturna enda bjuggum við ekki við þann lúxus sem felst í knattspyrnuhöllum nútímans.“

„Í raun var þetta algjört ævintýri“

Ekki leið á löngu áður en Guðna var kippt út til Englands til reynslu hjá úrvalsdeildarliði. „Tvítugur fór ég út til Aston Villa þar sem þeir vildu fá mig í tveggja vikna prufu. Þetta bar mjög fljótt að en gekk nokkuð vel, þrátt fyrir mikil viðbrigði. Reynslutíminn var þó ekki nægur til að leyfa mér að sannfæra þá enda erfitt að komast að á þessum tíma þegar aðeins tveir erlendir leikmenn máttu spila í hverjum leik.“ Í kjölfarið hélt Guðni aftur heim og hóf nám við lagadeild háskólans en þremur árum síðar fékk hann annað tækifæri og stærra, þegar stórlið Tottenham bauð honum að reyna sig á æfingum í Lundúnum. „Þarna var ég kominn á fjórða ár í náminu og var ekkert í sérstöku formi. Samt sem áður gekk mjög vel á æfingunum og þeir urðu áfjáðir í að fá mig til liðs við sig. Ég fékk þá pabba, sem var lögmaður, með mér í lið og við náðum snaggaralegum samningum saman við feðgarnir. Þetta var gríðarlega spennandi tími og mér þótti gaman að vera kominn í þetta stórlið sem Tottenham var og er.“

Stúdentablaðið/Adelina Antal

Stúdentablaðið/Adelina Antal

Laganámið fékk því að sitja á hakanum um sinn. „Ég var að velta því fyrir mér að taka þetta utanskóla. Fótboltinn átti þó hug minn allan enda var þetta stórt tækifæri. Þetta var mjög fjarlægt þá, öðruvísi en það er í dag. Atvinnumennskan var heldur ekkert raunhæfur kostur og maður gerði aldrei ráð fyrir að feta þann veg. Heldur ekki sem varnarmaður því jafnan eru sóknarmennirnir eftirsóttastir. Í raun var þetta algjört ævintýri að vera kominn á þessa risastóru leikvanga þar sem 30 til 40 þúsund manns voru mættir til að berja mann augum þegar maður var vanur því að fjöldi áhorfenda væri rétt um þúsundið. Beinar útsendingar voru varla komnar þá og því dálítið óraunverulegt að vera kominn þarna í umhverfi sem maður hafði bara séð í sjónvarpinu, nánast í svarthvítu,“ segir Guðni og hlær við. „Þegar ég mætti til leiks voru þarna kanónur á borð við Gazza (Paul Gascoigne) og þekktir enskir landsliðsmenn eins og Chris Waddle og Gary Mabbutt. Við töldum fjörutíu manns allt í allt og á þessum tíma máttu bara tveir vera á bekknum, þannig á leikdegi voru alla jafna 27 fúlir,“ segir hann og hlær aftur.

Stúdentablaðið bað Guðna Bergs um að skipa 11 manna lið af öllum þeim bestu sem hann spilaði með á sínum langa og farsæla ferli.  Á bekknum sitja : Birkir Kristinsson, Eiður Smári, Peter Beardsley, Arnór Guðjohnsen, Sævar Jónsson, Atl…

Stúdentablaðið bað Guðna Bergs um að skipa 11 manna lið af öllum þeim bestu sem hann spilaði með á sínum langa og farsæla ferli.  Á bekknum sitja : Birkir Kristinsson, Eiður Smári, Peter Beardsley, Arnór Guðjohnsen, Sævar Jónsson, Atli Eðvalds og Per Frandsen. „Ég verð líka að setja mig á bekkinn sem spilandi stjóra,“ segir Guðni og brosir.

Eitt eða tvö tímabil urðu að níu

Að lokum fór það svo að leiðir Guðna og Tottenham skildu. „Þetta æxlaðist þannig að ég kláraði minn samning og vildi þá nýta tækifærið og klára námið sömuleiðis. Tottenham vildi þó semja við mig áfram en ég var ekkert mikið spenntur fyrir því. Maður brosir aðeins að þessu núna þegar maður lítur til baka en ég var búinn að bíta þetta í mig. Reyndar kom þá nýr framkvæmdastjóri, Ossie Ardiles, sem varð heimsmeistari með Argentínumönnum. Hann hringdi í mig og sagði að ég væri maðurinn og að hann vildi virkilega fá mig aftur, sem ég féllst að lokum á. En þá komu upp meiðsli þar sem ég var ómögulegur í bakinu og enginn vissi hvernig á því stóð. Síðar kom í ljós að ég var með sprungu í hryggjarlið. Þá þurfti ég að hvíla í marga mánuði og allt var óvíst um framhaldið.“

Guðni leit á meiðslin sem tækifæri til að klára námið og sneri því aftur í háskólann. „Þetta var mikill og erfiður lestur eftir langa pásu frá lærdómnum. Ég reyndi að stíga upp úr meiðslunum og spilaði eitt sumar með Val þar sem ég var ekkert í sérstöku formi en átti fínan sprett seinni hluta tímabilsins. Eftir að ég fann að ég var orðinn heill heilsu byrjaði hugurinn að leita aftur út. Ég ákvað að ég vildi enda þetta á öðrum nótum en að hrökklast meiddur heim,“ segir Guðni. Samningar tókust á milli Guðna og Bolton, liðs sem þá var að berjast um að komast í úrvalsdeildina í Englandi. „Þarna átti ég bara meistararitgerðina eftir og ætlaði bara út að taka eitt eða tvö tímabil. Þau urðu á endanum átta eða tæplega níu svo það teygðist nú ágætlega á þessu.“

Fyrsta snertingin var stoðsending á Wembley

Fyrsti leikur Guðna með Bolton var í sjálfri dómkirkju knattspyrnunnar, Wembley-leikvanginum í Lundúnum. „Síðasti leikurinn minn með Tottenham hafði einmitt líka verið á Wembley, sem er mjög sérstök tilviljun, og hlýtur í raun að vera eitthvað einsdæmi þar sem ekki eru margir leikir leiknir á Wembley. Þarna vorum við að keppa í úrslitaleik deildarbikarsins á móti Liverpool, með lið sem var mjög spennandi og ferskt. Ég kom inn á sem varamaður og hljóp sem vitlaus væri. Fyrsta snertingin mín fyrir liðið var stoðsending fyrir marki og það var skemmtilegt að koma inn með þessum hætti. En við rétt töpuðum, 2-1, í hörkuleik þar sem við vorum dálítið óheppnir,“ segir Guðni og bætir við að hann hafi heimsótt Wembley aftur um vorið. „Þá spiluðum við úrslitaleik um að komast upp í úrvalsdeildina. Unnum Reading, 4-3 eftir framlengingu, í rosalegum leik. Þetta var gríðarlega skemmtilegur tími og viðburðaríkur þar sem ég fékk að koma að endurreisn þessa fornfræga félags.“

Stúdentablaðið/Adelina Antal

Stúdentablaðið/Adelina Antal

Erlendis áttu margir bágt með að trúa því að varnarjaxlinn Guðni væri menntaður lögfræðingur. „Margir áttu voðalega erfitt með að kyngja þessu. Þetta þótti dálítið sérstakt og er auðvitað mjög sjaldgæft í atvinnumannaboltanum. Ef mann bar yfir höfuð á góma þá var þessi staðreynd alltaf sérstaklega reifuð,“ segir Guðni. Aðspurður bætir hann við að menntunin hafi nýst honum talsvert þegar kom að samningaviðræðum. „Ég er auðvitað mjög þakklátur fyrir að hafa fengið tíma og frið til að mennta mig, klára lögfræðina og verða lögfræðingur. Öll þekking og menntun hjálpar manni en vitneskja viðsemjenda um að maður væri lögfræðimenntaður gaf mér ákveðna vigt sem hjálpaði örugglega í vissum tilvikum.“

Þrjú ár á leiðinni að hætta

Eftir sex ár hjá Bolton hafði Guðni loks ákveðið að segja skilið við bæði boltann og félagið. Sam Allardyce, þáverandi þjálfari liðsins, vildi þó halda í íslenska víkinginn. „Ég var eiginlega búinn að setja í gám og var á leiðinni heim þegar hann býður mér nýjan samning. Hann fól í sér einhverja launalækkun, sem mér fannst ekki sæmandi, þar sem ég hafði verið valinn leikmaður ársins hjá Bolton og hafði spilað mjög vel á leiktíðinni. Sagði ég honum að ég sætti mig ekki við þetta, enda var fjölskyldan komin í gír fyrir heimför. Á endanum náðum við þó saman og ég framlengdi samninginn um ár. Svo komumst við upp í úrvalsdeildina aftur og þá framlengdi ég um annað ár og svo aftur ári seinna og var þannig eiginlega þrjú ár á leiðinni að hætta. Ég ákvað hins vegar að segja þetta alveg gott þegar ég var orðinn 38 ára og farinn að sakna fjölskyldunnar sem var þá búin að vera á Íslandi þessi þrjú ár. Eftir á að hyggja hefði ég í raun átt að spila eitt ár í viðbót og ég hugsa að ég hefði getað spilað eitt eða tvö tímabil til viðbótar því ég var í fantaformi. En það er dæmigert að hugsa svona eftir að menn hætta í boltanum. Ég skildi þó við liðið í  efstu deild.“

Guðni sneri þá heim á klakann en fylgdist þó áfram með hasarnum í Englandi. „Þarna var liðið komið í efri hluta deildarinnar en ég var kominn heim og fylgdist með þeim úr fjarska. Þá var reyndar búið að bjóða mér að koma aftur en einhvern veginn þáði ég það nú ekki. Ég vildi ekki hætta við að hætta enn einu sinni,“ segir Guðni en rifjar þó upp augnablik sem lét hann efast um ákvörðun sína. „Ég man eftir þessu augnabliki þar sem ég var að lesa undir prófið fyrir lögmannsréttindin, sem var hörkuvinna, en ég tók mér stutt hlé til að sjá félagana spila úrslitaleik deildabikarsins gegn Middlesborough á Millennium Stadium,“ segir Guðni og lýsir hvernig honum leið við áhorfið. „Ég var nú meiri vitleysingurinn að taka þessa ákvörðun, að vera hér að þvæla mér í gegnum þessar yndislegu lagaskruddur í stað þess að leiða liðið mitt út fyrir framan áttatíu þúsund manns á stórleikvangi í bikarúrslitaleik. Svona er þetta,“ segir Guðni og brosir.