„Við stelpurnar höfum lent í ýmsu“
Leikritið Konubörn var frumsýnt í Gaflaraleikhúsinu þann 14. janúar síðastliðinn. Sex ungar og hæfileikaríkar konur standa að baki sýningarinnar sem slegið hefur í gegn. Að því tilefni skellti Stúdentablaðið sér í leikhús og tók tvær þeirra tali, þær Eygló Hilmarsdóttur og Sigurlaugu Söru Gunnarsdóttur.
„Þetta er sketsabyggð sýning. Það er enginn söguþráður sem endar og karakterinn deyr eða svoleiðis. Þetta eru margar litlar sögur eða móment úr lífi ungra kvenna. Þetta fjallar um það að vera stelpa, eða kona, eða barn. Að vera konubarn!“
Reynsluheimur ungra stúlkna
Spurðar að því hvaðan hugmyndin að Konubörnum kom svara Eygló og Sigurlaug Sara því að þær séu allar í leiklist og hafi viljað gera eitthvað tengt henni. Sigurlaug Sara var að vinna á Mary Poppins sýningunni í Borgarleikhúsinu en á þeirri sýningu var alltaf spilað lag sem heitir „Allt er hægt bara ef þú trúir á það.“
„Ég var alltaf mjög meyr þegar þetta lag var í gangi og ákvað að hafa samband við stelpurnar.“
„Við ákváðum taka af skarið og prófa að búa eitthvað til sjálfar,“ segir Eygló. „Við fórum að tala um unglingsárin og þá kom upp endalaust af sögum. Okkur fannst það svo fyndið allt saman og hugsuðum með okkur að það væri gaman að gera úr því leiksýningu. Við vorum svolítið undir áhrifum frá Tinu Fey, Amy Poehler og Lenu Dunham því þær eru allar að skrifa sitt dót sjálfar út frá eigin reynsluheimi. Það er flott að hafa þannig fyrirmyndir og hugsa að við getum alveg skrifað eitthvað sjálfar þó að það sé ekki beint vegna þeirra sem við skrifuðum leikritið. Af hverju ættum við ekki að geta sagt frá því sem við erum að upplifa?“
Auknar vinsældir kvenkyns grínista
Leikkonurnar sóttu innblástur að hluta til erlendra grínista á borð við Tinu Fey, Amy Poehæer, Lenu Dunham og Mindy Kaling. Þær litu einnig til Ilmar Kristjánsdóttur og Stelpnanna. „Fyrirmyndir eru mikilvægar sama hvaðan þær koma. Við stukkum svolítið í djúpu laugina með fullkomlega tómt blað. En við erum náttúrulega ekkert tómt blað. Við stelpurnar höfum lent í ýmsu. En húmorinn sjálfur er ekkert endilega sóttur til þeirra, þetta er bara okkar húmor. Bara eitthvað sem okkur finnst fyndið og höfum lent í og einmitt það að allur hópurinn hefur upplifað það sama er svo fyndið. Sannleikurinn er líka bara ógeðslega fyndinn og absúrd. Stelpur á okkar aldri, upp úr tvítugu, tengja örugglega lang best við þetta. Þetta er náttúrulega okkar reynsluheimur.“
Kvenkyns uppistandarar og grínistar hafa sótt í sig veðrið og verið meira áberandi síðustu ár og eru Eygló og Sigurlaug Sara báðar sammála því. „Það er ótrúlega margt að gerast. Ég meina, við erum að gera þetta. Svo er Saga Garðars náttúrulega að gera fullt,“ segir Eygló. Sigurlaug Sara bætir við: „Ég man að hún var með uppistand á Næsta bar og að ég hugsaði, já, eru stelpur með uppistand? Ég var virkilega meðvituð um það að stelpur væru með uppistand en núna er það ekki jafn áberandi þó það sé svona stutt síðan. Það er hellingur að gerast. Stelpur og konur eru að fara í gang. Það eru að verða til fyrirmyndir og þegar það gerist þá fer boltinn að rúlla.“
Boðskapur
Stelpurnar segjast ekki hafa lagt upp með það í byrjun að í Konubörnum ætti að vera boðskapur, heldur megi áhorfendur draga úr sýningunni það sem þeir vilja.
„Það er alltaf rosalega mikil krafa þegar konur skrifa að vera með boðskap og að vera pólitískt korrekt. Það er ekkert endilega neinn boðskapur, við erum bara að segja sögur. Björk (leikstjóri Konubarna) sagði að þegar hún leikstýrði sýningu fyrir áramót með þremur strákum sem hét Heili, hjarta, typpi að þeir hefðu mjög sjaldan ef ekki aldrei fengið spurningu um hvort það væri einhver boðskapur. En síðan fá stelpur alltaf: Hvað eruð þið að segja með þessu? Stelpur eiga alltaf að vera í einhverri baráttu. Það er fullt af ádeilum þarna og mikið sem við erum að hugsa. Í rauninni er sýningin kannski svolítið um hver séu réttu skilaboðin. Ert þú að gera það sem er rétt? Ert þú góður femínisti? Femínismi er svo stórt hugtak. Maður er aldrei verri femínisti en annar þó svo að maður hafi ólíkar skoðanir. Það sem við erum að gera, sex stelpur að skrifa sýningu um stelpur, er bara mjög róttækt í sjálfu sér. Bara það að þora og gera það. Við viljum ekki segja að það séu einhver ein rétt skilaboð. Þetta er bara eitthvað sem okkur langar til að gera.“
Hvað kemur næst?
Konubörn hafa fengið mjög góðar viðtökur og segjast Eygló og Sigurlaug Sara báðar vilja gera meira þótt þær séu ekki vissar um hvort eða hvenær það verði. „Við erum allar mjög hugmyndaríkar og höfum mjög mikið af plönum og draumum. Vonandi gerum við eitthvað einhvern tímann saman af því að við erum allar geðveikt skemmtilegar en við vitum það ekki. Kemur í ljós!“
Leikstjóri: Björk Jakobsdóttir
Höfundar og leikarar: Ásthildur Sigurðardóttir, Ebba Katrín Finnsdóttir, Eygló Hilmarsdóttir, Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir, Þórey Birgisdóttir og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir.
Aðeins tvær sýningar eru eftir, 22. og 26. febrúar.