Sigurljóð 2. ritlistarkeppni Stúdentablaðsins ásamt umsögn dómara

Úrslit

1. sæti: Andrés Erlingsson

2. sæti: Simon Moesch

3. sæti: Lárus Jón Guðmundsson

Dómari ritlistarkeppni 2. tölublaðs Stúdentablaðsins í vetur er Bjarki Karlsson, skáld. Hann segir eftirfarandi um keppnina og vinningsskáldskapinn:

Í keppninni var óskað eftir texta sem væri nákvæmlega 30 orð, eða sem nemur fjölda bókstafa í íslenska stafrófinu að ð og x frátöldum og skyldi hver bókstafur (fyrir utan ð og x) koma einu sinni fyrir sem upphafsstafur orðs í texta.  Einnig var auglýst á ensku og var þá kallað eftir 25 stafa texta og vísað í enska starfrófið að stafnum x undanskildum. Tekið var fram að allar tegundir skáldsskapar væru leyfilegar, svo fremi sem farið er eftir reglunum.

Alls bárust 32 textar í keppnina. Þrír þeirra stóðust ekki ofangreindar formkröfur og voru þá 29 eftir til að taka til formlegrar skoðunar, tíu á ensku og nítján á íslensku. Sennilega var leikurinn ekki alveg jafn þegar til þess er tekið að á ensku þurfti að fást við færri orð og upphafsstafi auk þess sem enska sækir orðaforða sinn í mörg tungumál og er því ríkari að orðaforða (þ.e. orðstofnum) en íslenska. Þetta gerir verkefnið sennilega nokkuð vandaminna á ensku. Á hinn bóginn hefur eins manns dómnefndin íslensku að móðurmáli en ekki ensku og ekki er ólíklegt að það geri meira en að vega muninn upp. Dómnefndin tók þá ólýðræðislegu ákvörðun að reyna að láta alla sitja við sama borð. Textarnir bárust undir skammtöfunum sem er ekki ljóst hvort eru fangamark höfunda eða eitthvað allt annað og því var ekkert vitað um aldur, kyn eða bakgrunn höfundar. Það er því tilviljun að þrír karlar raði sér í verðlaunasætin og kemur nokkuð á óvart. Dómnefndin vonar að eitthvað annað en algjört skilningsleysi á reynsluheimi kvenna valdi.

Textarnir voru af ýmsu tagi. Nokkrir voru settir upp sem óbundið mál, sumir með ljóðmáli, líkingum og myndum o.fl., en aðrir alls ekki.  Aðrir voru settir fram sem ljóð, ýmist rímuð eða órímuð, jafnvel myndljóð (e. calligram).  Sumir létu sér ekki nægja að koma með alla upphafsstafina og létu þá orðin birtast í stafrófsröð í textanum.

Fyrst og fremst var þó horft til þess að textinn væri annað og meira en upptalning orða. Hann yrði, eins og aðrir bókmenntatextar, að hreyfa við lesandanum á einhvern hátt, hvort sem það er hrifning, reiði, hlátur, undrun eða aðrar tilfinningar sem vakna. Stílbrögð umfram formkröfur keppninnar gera höfundinum erfiðara um vik að setja saman áhrifaríkan texta án merkingarsnauðra uppfyllinga og annarra textalýta. Engum var leyft að brjóta eigin reglur, svo sem að byrja á stafrófsröð en víkja svo frá henni. Hins vegar efla viðbótarformkröfur textann og áhrif hans þegar vel tekst til.

Meirihluti textanna var reglulega góður og helst hefði þurft að veita sex til sjö verðlaun til að viðurkenna allt sem var reglulega vel gert. Þrír urðu þó að verða fyrir valinu en þeir eru sem hér segir:

Textinn Flóttafólk, með höfundarmerkið AE, þótti standa upp úr. Orðin, sem birtast í stafrófsröð, standa hvert í sinni línu og hefjast öll á upphafsstaf. Punktar og kommur sýna okkur þó hvernig þeim er skipað í níu stuttar setningar en framsetningin leggur áherslu á mikilvægi hvers einasta orðs. Ekkert þeirra er „hortittur“, eða merkingarsnauð uppfylling til að fylla inn í formið. Flestar setninganna eru án sagnorðs í persónuhætti og þætti þannig ófullkomnar í lausamáli en hér draga þær upp skýra mynd og segja allt sem segja þarf.


Flóttafólk

 

Angistin,

Áþján

Barnanna.

Draumar

Eyðilagðir.

Él

Framundan.

Grátandi,

Hungraðir

Innflytjendur.

Ísköld

Jörðin

Kular

Líkamana.

Mannvonskan

Nístir.

Okkur

Óviðkomandi?

Peningalaus,

Rúin

Samúð.

Traust

Urið.

Úrvinda,

Varnarlaus,

Yfirgefin.

Ýkjulaust,

Þögnin

Ærandi,

Örmagna …

 

-Andrés Erlingsson

 

Í öðru sæti er texti merktur SM undir yfirskriftinni Untitled. Orðin raða sér í tvær setningar. Í þeirri fyrri fáum við að skynja örlagaríka stund með augum Katherine en í síðari hlutanum sjáum við utanfrá hvernig straumhvörf verða í lífi hennar. Hér er mikil merking bundin í 25 orð.


Untitled

 

She observed clouds, questioning late grandpa

Zachery’s eyes appearing behind father’s inflamed jeep. “Not yet!”, mumbled

the voice peacefully, when,

doctors unexpectedly reanimated Katherine’s heart.

 

-Simon Moesch

 

Í þriðja sæti er framlag sem stafirnir LJG eru ritaðir undir. Textarnir eru þrír og bera yfirskiftirnar Tígur I, Tígur II og Tígur III. Þó er þetta eitt framlag en ekki þrjú því að sömu þrjátíu orðin eru notuð í þeim öllum. Reyndar stinga tvö þeirra, júbla og píur, svolítið í stúf við málsniðið í heild án þess að það þjóni öðrum tilgangi en forminu.

Í fyrsta kafla er algerlega reglubundin hrynjandi; fallandi tvíliðir án forliða. Fyrstu tvær línurnar hafa tvo bragliði (fjögur atkvæði) hvor en í þeirri þriðju er aðeins einn. Þessu mynstri er haldið þangað til í lokin þar sem skammlína kemur strax á eftir aðeins einni lengri og dregur þannig að sér áherslu. Þar liggur líka merkingarþunginn. Þegar þessi formkrafa bætist ofan á stafaþrautina getur verið erfitt að skila sannfærandi texta en þó fáum við að fylgjast með innri vangaveltum manns sem er (eða vill vera) djarftækur til kvenna. Hann reisir eigin sjálfsmynd á farsæld og frama við hvílubrögð sem virðast hér vera framundan og hann til búinn til reiðar. Þó er ekki allt sem sýnist.

 

Tígur I

 

Vekur oddinn,

Amors góði

draumur.

Æ ég heilsa,

úrvals bláum

fljóðum.

Sígur undir,

kátust júblar

ástin.

Píur magnast,

rjóðar ólga,

ilma.

Ýtir norðurs,

þjóðar yndi.

Tígur.

Ein í laumi,

öndin.

Hrynjandin er ekki eins regluleg í næsta kafla enda er spennan liðin hjá. Ljóðmælanda er enn með hugann við atgervi sitt, sjálfsmynd og afrekaskrá á erótíska sviðinu en konan (eða konurnar) fanga hug hans alls ekki. Er maðurinn svona yfirgengilega sjálfhverfur eða er allt tóm ímyndun?

 

Tígur II

 

Æ ég heilsa

draumi góðum

Amors

ástar bláum.

Í laumi ein,

júblar öndin

undir fljóðum

kátum.

Magnast ólgan

píur rjóðar

ilma.

Sígur oddur.

Úrvals tígur ýta,

yndi vekur

norður þjóðar.

 

Þriðji kafli segir um það bil það sama og annar kafli og gerir hann í raun óþarfan því að hér er kveðið af mikilli íþrótt. Höfundi hefur tekist hið ómögulega; að bæta ofan á stafaþrautina þeirri ströngu formkröfu að binda frásögnina í tvær rétt kveðnar draghendur með fullkominni hrynjandi, rími og stuðlasetningu. Ætla mætti að stuðlun stafaþrautar væri með öllu óframkvæmanleg og það hélt dómnefndarmaðurinn þangað til hann sá þessa úrlausn sem felst í því að stuðla á sérhljóðum. Í hverju braglínupari eiga að vera þrír ljóðstafir og þar sem sérhljóðarnir í stafrófinu eru tólf (é ekki talið með því að það hefst á samhljóði og stuðlar við j) gengur dæmið upp með fjórum braglínupörum.  

 

Tígur III

 

Amors bláum ástar draumi,

æ ég heilsa góðum.

Öndin júblar, ein í laumi

undir kátum fljóðum.

Ólgan magnast, oddur sígur,

ilma píur rjóðar.

Yndi vekur úrvals tígur

ýta norður þjóðar.

 

 -Lárus Jón Guðmundsson
 

Texti: Bjarki Karlsson
 

MenningStúdentablaðið