Stúdentablaðið mælir með
Myndin
Going Clear: Scientology and the Prison of Belief er heimildamynd sem kom út fyrr á árinu. Myndin, sem byggir á samnefndri bók Lawrence Wright frá 2013, hefur notið mikillar velgengni og vann meðal annars til þriggja Emmy-verðlauna nú í haust. Myndin rekur sögu Vísindakirkjunnar á afhjúpandi hátt, fer ofan í saumana á tengslum ýmissa Hollywood-leikara við kirkjuna og sýnir viðtöl við átta fyrrverandi meðlimi hennar. Leikstjóri er Alex Gibney.
Maturinn
Súrsaðar gúrkur eru tilvalið meðlæti með ýmsum mat. Teikn eru á lofti um að súrt bragð sé næsta tískubylgja í matarmenningu: súr bjór selst dýrum dómum á svölustu börum borgarinnar, hipsterar súrsa nýupptekið grænmeti í töff krukkum og sýna afraksturinn á Pinterest og íslenska skyrið rýkur út úr hillum stórmarkaða í New York og víðar. Súrsaðar gúrkur hafa því ef til vill sjaldan átt jafn vel við og nú.
Tónlistin
Djass er býsna góð skammdegismúsík. Fyrir þá sem hafa lítið kynnt sér djass er ráð að kíkja í 1. tölublað vetrarins en þar má finna lagalista samsettan af djasstónlistarmönnunum Ragnhildi Gunnarsdóttur og Steingrími Teague. Annars mælir Stúdentablaðið heilshugar með saxafónleikaranum Maceo Parker fyrir þá sem eru gefnir fyrir fönkskotinn og dillvænan djass.
Bókin
Naumhyggja, eða mínímalismi, er ekki eingöngu bundin við skandínavíska húsgagnahönnun, hún er öllu heldur lífsstíll sem æ fleiri kjósa að tileinka sér. Bókin The Life-Changing Magic of Tidying Up: The Japanese art of decluttering and organizing, eftir Japanann Marie Kondo, hefur náð geysimiklum vinsældum upp á síðkastið en eins og titillinn gefur til kynna er bókin eins konar leiðarvísir um hvernig hægt er að einfalda líf sitt og heimili og öðlast þannig meiri lífshamingju.
Tilbreytingin
Spilakvöld með vinum eru gjarnan miklar gæðastundir. Hins vegar eru margir sem veigra sér við að fjárfesta í borðspilum enda eru þau oft stór og fyrirferðarmikil og vandkvæðum bundið að finna þeim geymslupláss. Stúdentablaðið mælir því með hinum svokallaða miðaleik, en það eina sem þarf til þess að spila hann eru blýantar og blöð. Leikurinn gengur þannig fyrir sig að þátttakendur skrifa nöfn á alls konar fólki á ótal miða og setja miðana svo í skál. Síðan para keppendur sig saman í lið og í hverri umferð fær annar liðsmaðurinn hálfa mínútu til þess að draga eins marga miða og hann getur og gefa vísbendingar um nafnið á miðanum án þess þó að nefna það á nafn þar til hinn liðsmaðurinn hefur náð að svara. Leik lýkur þegar miðarnir hafa klárast og það lið sem hefur náð flestum miðum sigrar.