Reconnesse Database sviptir hulunni af afrekum kvenna
Á fallegu kaffihúsi við Reykjavíkurhöfn hitti ég Andreu Björk Andrésdóttur og Berglind Sunnu Stefánsdóttur. Andrea Björk er með BA í sagnfræði frá HÍ og lærði hreyfimyndahönnun frá Hyper Island í Stokkhólmi, Berglind Sunna lærði nýsköpun og frumkvöðlafræði í KaosPilot skólanum í Árósum. Þær eru jafnframt stofnendur Reconesse Database sem er alþjóðlegur gagnagrunnur sem heldur utan um áhrifamiklar konur í mannkynssögunni. Þær, ásamt hópi af samhuga fólki, hafa unnið að því að gera kvenkyns fyrirmyndir aðgengilegri. Þær trúa því að með því að gera konur sýnilegri færumst við nær jafnrétti kynjanna
Hvað er Reconesse Database?
A og B: Reconesse Database er alþjóðlegur gagnagrunnur á netinu um konur sem haft hafa áhrif á samfélag manna en lítið eða ekkert hefur verið fjallað um í heimssögunni. Reconesse Database er skipt í þrjá hluta; fortíð, nútíð og framtíð. Í fortíðarhlutanum er hægt að finna „prófíla“ af merkum konum sem ekki er hægt að finna í sögubókunum. Í nútímahlutanum eru fréttir af því sem er að gerast í jafnréttisbaráttu og af konum sem eru að gera athyglisverða hluti í dag. Í framtíðarhlutanum á síðan að vera stuðningsnet, þar sem hægt verður að finna tækifæri á borð við styrki, menntun og félagssambönd.
Markmiðið er að þetta sé hvatning fyrir fólk til að finna og elta drauma sína. Þótt síðan sé ætluð konum, transkonum og kynsegin (e. non-binary) fólki þá geta auðvitað allir notað hana sér til gagns og fróðleiks.
Sem dæmi um hvernig Reconesse Database virkar má nefna að ung kona sem hefur áhuga á tölvunarfræði og tækni gæti ratað á prófíl um Ödu Lovelace. Ada var uppi á fyrri hluta 19. aldar og gerði sér fyrst allra grein fyrir möguleikum þess að forrita tölvu til að framkvæma fjölbreyttar skipanir, í stað þess að leysa eingöngu reikningsdæmi. Hún hefur verið kölluð fyrsti forritarinn.
Unga konan verður upprifin af þessari mögnuðu fyrirmynd og les sér meira til, til dæmis um Hedy Lamarr sem er þekkt fyrir fegurð og leikhæfileika en færri vita að hún fann upp á tækni sem í dag er notuð í wi-fi og bluetooth. Hún rekst svo á grein í nútíðarhluta síðunnar þar sem sagt er frá Megan Smith sem ekki aðeins vinnur fyrir Bandaríkjastjórn og Google heldur er mikilvægur partur af kveneflandi hreyfingum á borð við the Malala Fund.
Loks skoðar unga konan framtíðarhluta síðunnar þar sem hún finnur samtök eins og Girls Who Code og Girls in Tech, síðuna Codecademy og önnur hjálpleg tækifæri til að elta drauma sína í tölvunarfræði og tækni almennt.
Hver var kveikjan að verkefninu?
B: Fyrir tveimur árum var ég stödd í Kólumbíu ásamt skólafélögum mínum. Ég var byrjuð að leita eftir hugmyndum að lokaverkefni í náminu og vissi að mig langaði að fjalla um eflingu kvenna. Þá kom hugmyndin til mín vegna tilviljana.
Nokkurn veginn samtímis læri ég um hina mögnuðu Policarpa Salavarrieta sem var kólumbískur njósnari og frelsishetja. Mér þótti hún ótrúlega töff og mikill innblástur og hugsaði með mér hversu margar konur væru í sögum annarra þjóða sem ég hafði aldrei heyrt um og þannig misst af þessum kvenkyns fyrirmyndum. Á sama tíma las ég grein á íslenskri fréttasíðu um að efni kennslubóka í sögu á grunn- og framhaldsskólastigi á Íslandi einkenndist af afar ójöfnu kynjahlutfalli.
Fljótlega eftir það las ég aðra grein um rannsókn á viðhorfum íslenskra ungmenna um verkaskiptingu kynjanna. Sú rannsókn sýndi úreltar hugmyndir um hæfni kynjanna. Út frá þessu fór að þróast hjá mér hugmynd um mikilvægi þess hvaða sögur við kjósum að segja og áhrif þess á samfélag okkar. Mér dettur þá í hug að hafa samband við Andreu – snjallasta sagnfræðing sem ég þekki.
A: Þegar Berglind hafði samband við mig þá greip þetta verkefni mig strax. Ég hafði þá líka upplifað þetta í mínu námi, það er einstaklega þreytandi að vera í sagnfræði í Háskóla Íslands og vita að það er til ótrúlega mikið magn af upplýsingum um konur í sögunni en þrátt fyrir það ratar ekkert af því í bækur í grunn- og menntaskólum. Það virðist vera einhverskonar veggur þarna fyrir.
Af hverju er þetta verkefni mikilvægt?
A og B: Við trúum að allir eigi rétt á því að geta orðið hvað sem þeir helst vilja. Við trúum einnig að fyrirmyndir og það sem fyrir okkur er haft hafi áhrif á okkur. Það hlýtur því að skekkja myndina töluvert að konur séu í miklum minnihluta þegar kemur að umfjöllunarefni kvikmynda, sagnfræðibóka og frétta.
Konur út um allan heim verða fyrir misrétti og ekki eitt einasta land í öllum heiminum hefur náð jafnrétti. Við teljum að með því að setja kastljósið á sögur kvenna og lyfta þeim upp til jafns við karla, sýna fjölbreytileika þeirra og afrek í gegnum tíðina, getum við aukið virðingu fyrir konum. Aukin virðing er mikilvæg forsenda í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi, launamun, glerþökum og öðrum vandamálum misréttis.
Þetta er ekki aðeins mikilvægt út frá mannréttindasjónarmiðum heldur sýna fjölmargar rannsóknir fram á að fyrirtækjum, efnahag og þjóðum vegnar betur þegar aukin áhersla er lögð á fjölbreytni og jafnrétti á öllum stigum samfélagsins. Markmið okkar er að vekja athygli á þessum vanda, þessum skorti á umfjöllun um sögur kvenna og beita þeirri jákvæðu nálgun að gera sem mest af þessum sögum aðgengilegar öllum með nettengingu.
Það er mikilvægt að hafa í huga að mannkynssagan er ekki heilagur sannleikur, hún er saga sögð af fólki og byggist því á túlkun þeirra sem skrifa söguna. Túlkun þeirra á atburðum liðinnar tíðar einkennist því ævinlega af hlutlægum áherslum.
Það samfélag sem við þekkjum í dag leggur áherslu á jafnrétti og því eðlilegt að við förum að finna fjölbreyttari sögur til að leggja áherslu á í stórsögunni (e. grand narrative) og kennsluefni skólanna. Von okkar er að kennarar og skólar noti síðuna sem stuðningsefni í kennslu þar til kennslubókunum hefur verið breytt í takt við breytta tíma. Sama má segja um alla aðra sem starfa við miðla, t.d. frétta- og kvikmyndagerðarfólk.
Þegar góðar hugmyndir fæðast, kemur oft í ljós að það er erfitt að framkvæma þær. Hvernig hefur þetta gengið hjá ykkur?
A og B: Fyrst við erum að tala við stúdentablað þá getum við haldið áfram að gagnrýna skólakerfið. Það er auðvitað eitthvert grundvallarklúður að maður klári menntun í framhaldsskóla og jafnvel háskóla án þess að hafa þekkingu á samningsgerð, stofnun fyrirtækja eða hvernig á að gera skattskýrslur. Við höfum þurft að kenna okkur þetta allt sjálfar sem hefur verið verðmætur lærdómur en mjög tímafrekur.
Okkur finnst að nýsköpun og rekstur fyrirtækja sé eitthvað sem ætti að vera kennt í öllum framhaldsskólum því nýsköpun getur gagnast öllum. Ef ég get ráðlagt ykkur eitthvað þá er mikilvægast að byrja bara. Taka fyrsta skrefið, setjast niður og kortleggja verkefnið. Hvert er markmiðið? Hvaða skref þarf að taka til að komast þangað? Ekki hika við að biðja fólk um ráðleggingar eða aðstoð. Við höfum komist að því að fólk sem þú hefur samband við mun í flestum tilvikum hjálpa þér.
Reconesse Database var upphaflega rekið sem verkefni en við höfum smám saman verið að breyta því í fyrirtæki. Það felst heilmikill lærdómur í því að stofna fyrirtæki og knýja eitthvað áfram, sérstaklega þegar það er byggt á samfélagslegu sjónarmiði en ekki aðeins á gróðagildi og kapítalískri hugsjón.
Samfélagslegir frumkvöðlar leitast við að búa til fyrirtæki, vöru eða þjónustu sem gagnast bæði fyrirtækinu og samfélaginu. Þessi hugsun er smátt og smátt að ryðja sér til rúms í heiminum. Í framtíðinni verður vonandi jafn mikils metið að bæta samfélagið og að búa til gróða.
Hverjir fleiri koma að verkefninu?
A og B: Anna Gyða Sigurgísladóttir lögfræðinemi, frumkvöðull og þáttastjórnandi. Hún var einnig að gefa út heimildamynd nýlega um samfélagslega frumkvöðla. Ragnheiður Hólmgeirsdóttir sagnfræðingur, hún var að gefa út sína fyrstu skáldsögu. Valgerður Þórhallsdóttir sér um samfélagsmiðlana og fleira, hún er ein af stofnendum Meðgönguljóða og vinnur hjá Plain Vanilla. Forritararnir David Gundry og Kristján Eldjárn og grafíski hönnuðurinn Hrefna Sigurðardóttir vinna síðan hörðum höndum að því að koma síðunni í loftið.
Hvar er verkefnið statt núna?
A og B: Fyrsta beta-útgáfan af síðunni er tilbúin og var prófuð fyrir ári síðan í menntaskólum. Við fengum að prófa hana í Verzló, MH og Borgó. Það var frábært tækifæri að sjá fólk nota vöruna og fá endurgjöf á hana. Þau prófuðu sagnfræðilega hlutann og núna erum við að klára að endurvinna og hanna þann hluta út frá þessum prófunum og vonandi verður sá hluti síðunnar tilbúinn snemma á næsta ári.
Við byrjuðum sjálfar á því að skrifa prófíla fyrir sagnfræðihlutann en það tók gífurlegan tíma. Við fengum leyfi frá Britannicu um að nota 300 prófíla frá þeim, þannig að núna erum við komnar með um það bil 350 prófíla um konur. Við erum því, eftir því sem við best vitum, komnar með stærsta gagnagrunn í heimi um konur í sögunni.
Mesta vinnan fyrir okkur hefur verið að „matreiða“ upplýsingarnar til þess að þær verði aðgengilegar og þægilegar en ekki bara fræðilegir hnullungar sem enginn nennir að lesa nema sagnfræðingar. Við eigum hann því til og þegar sá hluti er tilbúinn þá verður hann líka á best hannaða og gagnvirkasta gagnagrunni heims. Núna fer mesti tíminn í að sækja um styrki svo við náum að opna fyrsta hlutann á síðunni og halda áfram að þróa hina tvo.
Draumurinn er að þegar síðan er komin í gagnið láti fólk út um allan heim okkur vita af sínum sögum líka. Við erum mjög meðvitaðar um að við séum hvítar íslenskar stelpur og að það takmarki okkur í leitinni af sögum sem að leynast í öðrum samfélögum. Því vonumst við til að þegar síðan opnar þá stækki tengslanetið og sagnfræðilegi hlutinn líka. Við viljum vera eins alþjóðlegar og mögulegt er.
Hvaðan kemur nafnið?
A og B: Nafnið kom þegar við vorum alveg að fara gefast upp eftir stífa hugmyndavinnu. Við ákváðum að búa til vörumerki. Nafn sem hafði áður ekkert tilfinningagildi og gæti hentað öllum. ‘Reconnaissance’ er hernaðarorð sem þýðir að fara fyrir aftan óvinalínur og afla upplýsinga – upplýsinga sem ekki eru auðfundnar.
Það minnir svolítið á það sem við gerum. Við tókum fyrri hlutann af því orði og bættum við franskri kvenendingu: -esse. Það geta allir verið „reconessur“, konurnar sem við leitum að, allir sem taka þátt í verkefninu og öll kyn.
Er hægt að taka þátt?
A og B: Við tökum alltaf fagnandi á móti fólki sem er til í að senda uppástungur eða skrifa fyrir okkur efni. Hvort sem það er fyrir fortíðarhlutann eða sniðuga hugmynd fyrir framtíðarhlutann. Við munum alltaf þurfa á efnisframleiðslu að halda en núna erum við að einbeita okkur að því að þróa vöruna og finna fjármagn.
Ef það eru einhverjir snjallir markaðs- eða viðskiptafræðinemar þarna úti þá mega þeir endilega hafa samband, okkur vantar hjálp með þau mál. Við tökum líka mjög vel á móti fjárfestum og fé almennt. Ef einhverjar spurningar vakna þá er hægt að senda þær á info@reconnesse.org.
Texti: Birna Stefánsdóttir
Ljósmyndir: Håkon Broder Lund