Viðkvæm málefni dregin fram í dagsljósið: Jafnréttisdagar í Háskóla Íslands hófust í vikunni
Jafnréttisdagar í Háskóla Íslands voru settir á mánudaginn var en þetta er í sjöunda sinn sem dagarnir fara fram. Hátíðin hefur aldrei verið umfangsmeiri en nú en allir háskólar landsins taka þátt á einn eða annan hátt. Viðburðir Jafnréttisdaga eru fjölmargir og fara þeir flestir fram innan veggja Háskóla Íslands.
Ragnheiður Harpa Haraldsdóttir, formaður jafnréttisnefndar SHÍ, segir að ekki hafi verið lagt upp með neitt ákveðið þema á Jafnréttisdögum. „Í rauninni reynum við að forðast það að fjalla eingöngu um einhvern sérstakan hóp enda væri það mismunun í sjálfu sér! Þess í stað reynum við að horfa á jafnrétti í víðum skilningi og innlima sem flesta hópa. Margir virðast halda að Jafnréttisdagar snúist einkum um jafnrétti kynjanna en það er auðvitað ekki raunin.“ Þegar rýnt er í dagskrá Jafnréttisdaga má hæglega sjá að umfjöllunarefnin eru af ólíkum toga, til að mynda er athygli vakin á baráttu fatlaðra einstaklinga, hinsegin fólks, flóttafólks og innflytjenda. „Þótt ekki sé um neitt sérstakt þema að ræða í ár verður ekki hjá því komist að fjalla sérstaklega um mál sem eru í brennidepli um þessar mundir. Því verður tekið rækilega á málefnum eins og stöðu flóttafólks, íslamófóbíu auk aðgengi fatlaðra, en umræðan um aðgengi fatlaðra á skemmtistöðum og veitingahúsum hefur verið hávær undanfarið,“ segir Ragnheiður Harpa.
Ragnheiður Harpa fullyrðir að markmiðið með jafnréttisdögum sé fyrst og fremst vitundarvakning. Hún tekur sem dæmi að hún hafi ítrekað orðið vitni að óöryggi fólks gagnvart minnihlutahópum, oft viti fólk hreinlega ekki hvernig það eigi að tala við fatlaða eða ávarpa fólk sem flokkar sig ekki samkvæmt hefðbundinni kyntvíhyggju. „Það þarf að ræða málefni sem fólki finnst óþægileg, maður fæðist jú ekki með réttan orðaforða gagnvart til dæmis fötluðum einstaklingum. Við viljum reyna að opna umræðuna varðandi það hvernig maður talar við fólk úr minnihlutahópum og ég held að það skynsamlegasta í stöðunni sé einfaldlega að spyrja viðkomandi hvernig hann vill vera ávarpaður því það er auðvitað einstaklingsbundið.“
Ragnheiður Harpa kveðst vera spennt fyrir mörgum viðburðum á Jafnréttisdögum og segir að dagurinn í dag sé einstaklega spennandi. Fyrsti fyrirlestur dagsins, TO VEIL OR NOT TO VEIL: Women and Islam in India’s Medieval , Early Modern, and Postcolonial Texts hefst kl. 12:00 í Odda en fyrirlesari er Bindu Malieckal, dósent í ensku við Saint Anselm College í Manchester. Í öðrum fyrirlestri dagsins er fjallað um hið athyglisverða vandamál atgervissóun, eða brainwaste, á Litla Torgi kl. 14:00. Atgervissóun vísar til þeirrar hvimleiðu stöðu útlendinga sem hafa menntun sem ekki er lagt réttlátt mat á í nýju heimalandi. Þetta vandamál á brýnt erindi við háskólasamfélagið en rektor Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson, mun taka til máls á fyrirlestrinum. Deginum lýkur svo með pallborðsumræðum um stöðu flóttafólks á Íslandi en þær munu fara fram á Loft-hosteli kl. 18:45. „Þeir Íslendingar sem láta sig framtíð flóttafólks á Íslandi varða ættu ekki að missa af viðburðum dagsins í dag,“ segir Ragnheiður Harpa að lokum.
Jafnréttisdaga má finna á
Facebook, https://www.facebook.com/Jafnrettisdagar
og Twitter, @jafnrettisdagar