Hvað er betra en að vera námsmaður?

Það er fátt betra en að vera í skóla. Það finnst mér að minnsta kosti. Og flestir sem komnir eru til vits og ára kunna vel að meta skólalífið og allt sem því fylgir. Að stíga inn fyrir dyr skólans í fyrsta skipti gefur manni byr undir báða vængi og manni finnst allir vegir vera færir. Krakkar í fyrstu bekkjum grunnskólans kunna þó manna best listina að meta skólalífið. Með þaninn brjóstkassa koma þau stolt heim frá litríkum skóladegi. Uppáhalds fögin eru lestur og frímínútur. Geðveikt gaman.

Að vera í skóla er gaman, það segir allavegana í vísunni. Frjálsræðið eykst með aldrinum og háskólanemar kunna vel að nýta sér það. Að geta ráðið sér sjálf/ur – hvenær og hvort mætt er í tíma er af mörgum talið vera kostur númer eitt. Hver hefur ekki nýtt sér það að mæta aðeins seinna á mánudögum, ef svo vill til að stundataflan sé það illa skipulögð. Ég var reyndar með virkilega skilningsríkan kennara hérna um árið sem baðst alltaf afsökunar á tímunum sem voru fyrst á morgnana, klukkan átta eitthvað, sagði að þetta væri mjög svo ókristilegur tími og var ekkert nema umburðarlyndið.

Markmið þeirra sem eru í skóla er fyrst og fremst að öðlast brúklega visku fyrir komandi baráttu atvinnulífsins. Öll sú þekking og fræðsla sem námsmönnum býðst innan veggja skólanna hlýtur því að teljast afar stór kostur. Algjör forréttindi að hafa möguleika á að drekka í sig fróðleik misskemmtilegra kennara sem sumir hverjir eru reyndar eftirminnilegri en námsefnið sjálft.

Félagslífið er skipulagt fyrir mann – það þarf varla fleiri orð um kosti þess! Þú þarft ekki annað en að mæta og taka þátt, þar sem áhuginn liggur hverju sinni. Á námsárum mínum, hérna fyrir nokkru úti í Danmörku, hittust erlendir nemar á Stúdentabarnum á hverju miðvikudagskvöldi. Það varð að sjálfsögu að föstum dagskrárlið með bjór og öðrum almennilegheitum. Ekki man ég hvort verr var mætt í skólann á fimmtudögunum en öðrum dögum en þessi kvöld voru heilög – til jafns við sjálfa guðsmóðurina.

Og ég tala nú ekki um þann aragrúa af góðu fólki sem maður kynnist á námsárum sínum, hvort sem um er að ræða samnemendur, kennara eða aðra viðhangendur. Þvílík gullkista sem maður kann að eignast við slíkt tækifæri.

En það er kannski ekki alltaf eintóm sæla að vera í námi þó kostirnir séu oftast fleiri en gallarnir. Lítill fjárhagur er þar efst á blaði, þar sem afleiðingarnar eru ört hækkandi yfirdráttur og sífellt fleiri kvöldverðir í foreldrahúsum. Með litlum fjárhag verður forgangsröðunin skýrari og allt nema nauðsynjar detta út af listanum (eins leiðinlegar og þær geta nú verið). Hvað telst til nauðsynja er svo eins misjafnt og mennirnir eru margir.

Heimavinnan er böl margra og af einhverjum orsökum veltur hún alltaf inn á sama tíma hjá öllum kennurum! Skólabækurnar eru teknar með í ræktina, í barnaafmæli, í saumaklúbbinn og á sunnudagsrúntinn með örlítilli von um að þar verði manni kannski eitthvað úr verki. Þvílíkur brandari.

Hópavinna er eitt annað dæmið um ókosti þess að vera í námi þar sem það virðist ekki vera á færi okkar Íslendinga að stunda með góðu móti slíka iðju. Þó frændur okkar Danir séu þar framarlega í flokki virðumst við ekki hafa erft þá hæfileika sem til þarf í þeim listum. Maður lendir líka undantekningarlaust í hóp þar sem er þessi þarna eini... 

En staðreyndin er sú að námsmenn þurfa að færa ákveðnar fórnir ef fórnir skyldi kalla, þó svo margir af eldri kynslóðunum vilji meina að þau ein hafi staðið á haus í bleytu og slori (og þau hafa kannski eitthvað til síns máls í þeim efnum). Tengdaforeldrar mínir hafa oft minnst á árin sem þau voru að byggja, með þrjá litla stráka. Þá var slátur í matinn í nær öll mál. Heimasmíðuð húsgögn voru það hjá foreldrum mínum ásamt tvöfaldri vaktavinnu af hálfu húsbóndans með þeim afleiðingum að hann var eins og gefur að skilja ókunnugur í augum yngstu meðlima heimilisins.

Það er nefnilega þannig að í ákveðinni uppbyggingu, hvort sem um er að ræða menntun eða öðru, þurfa flestir að færa fórnir. Þær eru bara ekki allar steyptar í sama mót. Ég og kærastinn sváfum í einbreiðu rúmi í fimm ár og þar með gat bara annað okkar legið á bakinu í einu. Olnbogi í síðuna um miðja nótt þýddi: “nú má ég”. Ég neyddi líka þann sama kærasta til að klippa á mér hárið er við bjuggum erlendis þar sem klipping er dýr þar ytra og er samkvæmt mínum lista ekki nauðsynjavara.

En það er ekki alltaf auðvelt að vera blankur aumingi í námi með prófkvíða og hungurverki. Heimtufrekjunni getur slegið niður hjá okkur öllum og hver kannast ekki við að langa í ákveðna hluti og það akkúrat núna. Eins og litli frændi minn, þá þriggja ára, sem stóð og stappaði niður fótunum úti í búð með móður sinni og tautaði óðamála “ég vil... ég vil...”. Mamma hans beygir sig niður að honum, algjörlega búin að fá nóg af heimtufrekjunni og spyr hvað það er sem hann vilji eiginlega? “ Ég vil... ég vil bara eitthvað!” Já, við vitum ekki alltaf hvað við viljum en þá er kannski bara betra að fá eitthvað í stað ekki neins.

Ofdekraða kynslóðin sem við erum að ala upp nú í dag þarf sennilega einnig að færa einhverjar fórnir þegar þau verða námsmenn. Hvaða fórnir það eru vitum við ekki fyrir víst. Hvort það verði tveir í eins manns rúmi eða heimasmíðuð húsgögn er erfitt að segja en við skulum bara rétt vona að þau kunni að meta meira kosti þess en ókosti að vera námsmenn.